Áburður

jan 16, 2023

Á hverju vori á að gefa öllum gróðri áburð. Í venjulegan garð þarf 6-10 kg af blönduðum áburði á hverja 100 m2. Honum skal stráð jafnt yfir allan garðinn. Með því að láta greina sýnishorn af jarðveginum hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins er hægt að fá örugga vísbendingu um áburðarþörfina. Ráðlegt er að gera það í nýjum garði. Ekki ætti að bera tilbúinn áburð á í rigningu og ekki setja hann á blautt gras eða blautar plöntur. Áburðinn á að bera á í þurru veðri, annars getur hann brennt gróðurinn. Húsdýraáburður er góður, einkum í nýja garða, en með honum á að jafnaði að nota tilbúinn áburð. Plöntuleifar og hvers konar lífrænn úrgangur er líka góður áburður og bætir samsetningu jarðvegsins. Þá er gott að hafa safnhaug í garðinum.