Já, best er að setja einhvern húsdýraáburð með, t.d. hrossaskít, hænsnaskít eða sauðaskít. Einnig er hægt að setja nokkur blákorn (5-10stk.). Þegar notaður er sterkur áburður, svo sem hænsnaskít eða blákorn, þarf að setja örlítið lag af mold milli áburðar og róta, því áburður getur brennt rætur.

Já, gott er að sáldra tilbúnum áburði, svosem blákorni, á allar trjáplöntur u.þ.b. einu sinni á ári. Gott er að hafa í huga að áburður sem borinn er á yfirborð beðs, virkar jafnt fyrir allan gróður í beðinu – arfa líka.

Viðmiðið er 3 plöntur á hvern metra, 25-30 cm á milli plantna til að mynda góðan, þéttan vegg.

Við útplöntun í beð þarf að hafa í huga að bleyta jarðveginn vel þannig að hann sé blautur niður á 40 cm dýpi. Það næst með því að vökva hverja plöntu í 1-2 mínútur. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar verið er að planta út og fyrstu vikur á eftir – sérstaklega yfir sumarmánuðina. Limgerðis- og hnausaplöntur þarf að vökva sérstaklega vel strax eftir útplöntun og annan hvern dag 10 daga á eftir.

Sumarblóm í kerjum og pottum skal vökva á hverjum degi þegar við fáum marga sólríka og þurra sumardaga í röð, en minna ef rigning er. Mikilvægt er að pottar og ker hafi gat á botninum svo vatn safnist ekki fyrir því þá er hætta á að sumarblómin drukkni. Jafnframt getur vatn sem safnast fyrir í botni á pottum sprengt pottana ef það frýs yfir vetur.

Sumarblóm sem plantað er í beð þarf að vökva á hverjum degi, sérstaklega eftir útplöntun og í nokkra daga á eftir. Þar eftir þarf að vökva eftir veðri. Sama gildir um matjurtir.

Limgerði eru yfirleitt klippt á tímabilinu febrúar-apríl þegar plöntur eru í vetrardvala. Á sumrin má einnig klippa sumarklippingu en passa þarf að klippa ekki burt allan nývöxt. Þá þarf að passa að klippa ekki ofan af snemmblómstrandi tegundum eins og sýrenu og hvítblómstrandi kvistum.
Fjarlægja má stórar greinar af trjám allan ársins hring og sama gildir um að fella tré.

Það er best að færa plöntur þegar þær eru í vetrardvala á tímabilinu febrúar-apríl og október-janúar. Ekki er ráðlagt að færa plöntur yfir sumarmánuðina júní-september því þá er plantan með mestan nývöxt og blaðmassa, og því viðkvæm fyrir þurrki.

Ef ætlunin er að láta trjákrónurnar ná einhverntíman saman þá er ráðlagt að hafa um 3 metra á milli plantna. Ef tréin eiga að standa stök og trjákórónur eiga aldrei að ná saman er miðað við 4-6 metra á milli plantna. Oft eru þessum tegundum plantað þéttar og svo grisjaðar seinna.

Þegar blómin á plöntunni eru orðin lúin og fara að sölna er gott að týna þau af með blómabotninum og hluta stilksins með, til þess að varna því að plantan myndi fræ. Ef þetta er gert fer orka plöntunnar ekki í fræmyndun heldur í að blómstra áfram. Gott er að gefa þeim blómaáburð einu sinni í viku ig vökva hóflega en þó nóg. Sumarblómin veita gleði og fegurð lengur ef vel er um þau hugsað.